Mynd af Miðstöð símenntunar Hafnarfirði

Miðstöð símenntunar Hafnarfirði

Upplýsingar

UM NÁMSFLOKKA HAFNARFJAÐRAR - MIÐSTÖÐ SÍMENNTUNAR

Starfsemin byggir á grunni Námsflokka Hafnarfjarðar sem stofnaðir voru árið 1971. Meginhlutverk Námsflokkanna hefur verið að bjóða almenningi upp á fjölbreytt nám og þar með tækifæri til að efla grunnmenntun sína og stuðla þannig að aukinni þátttöku fólks í námi og hagnýtri fræðslu, efla tengsl við aðra skóla og fræðlsuaðila og styðja við það nám sem þar fer fram og æskilegt hefur þótt á hverjum tíma og verða við óskum einstaklinga og hópa um áhugaverð fræðslu- og kynningarnámskeið. Einnig að veita almenningi ráðgjöf um námsval og námsleiðir að ákveðnum markmiðum, sé eftir því leitað. Þannig hefur starfsemin verið sveigjanleg og tekið mið af þörfum og aðstæðum á hverjum tíma.

Á vormánuðum 1999 samþykktu skólanefnd og bæjarstjórn Hafnarfjarðar að auka starfssvið Námsflokka Hafnarfjarðar með því að þeir yrðu Miðstöð símenntunar. Það var svo ákveðið ári síðar, á vormánuðum 2000, að hefja formlega vinnu til að móta nýja stefnu fyrir stofnunina í samræmi við þessar breyttu forsendur til að fylgja eftir og gefa fyrri samþykkt raunverulegt brautargengi.

Frá 2003 hefur stofnunin verið miðstöð námsframboðs, hún hefur einnig leitt samstarf og þjónustu annarra menntastofnana og fræðsluaðila á sviði símenntunar og stuðlað að því að á hverjum tíma sé í boði fjölbreytt menntun fyrir íbúa á höfuðborgarsvæðinu án tillits til fyrri menntunar, svo sem matshæf framhaldsmenntun, starfstengt nám, lífsleikni- og frístundanám.

Strax árið 2003 öðlaðist Miðstöð símenntunar leyfi Menntamálaráðuneytisins til að starfrækja styttri námsbrautir fyrir aðstoðarfólk í leik- og grunnskólum, námsbraut fyrir stuðningsfulltrúa í grunnskólum og námsbraut fyrir leiðbeinendur í leikskólum í samræmi við námskrár.

Haustið 2010 samþykkti fræðsluráð Hafnarfjarðar að setja á fót starfshóp til að skoða stöðu Námsflokka Hafnarfjarðar- Miðstöð símenntunar (NH-MS). Megin markmið starfshópsins var að skoða möguleg sóknarfæri og möguleika á að styrkja það mikla starf sem nú þegar er unnið hjá NH-MS ekki síst í ljósi nýrra aðstæðna. Árið 2012 skilaði starfshópurinn tillögum varðandi stjórnskipulag, hlutverk, stefnu og markmið NM-MS.

Árið 2014 hlaut Miðstöð símenntunar viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðuneytisins til að annast framhaldsfræðslu skv. ákvæðum laga um framhaldsfræðslu.

Helstu áherslur í fræðslustarfseminni

Ný lög um framhaldsfræðslu tóku gildi í október 2010. En samkvæmt þeim er framhaldsfræðsla hvers konar nám, úrræði og ráðgjöf sem ætlað er að mæta þörfum einstaklinga með stutta formlega skólagöngu að baki og er ekki skipulagt á grundvelli laga um framhaldsskóla eða háskóla. Námsflokkar Hafnarfjarðar - Miðstöð símenntunar er viurkenndur af mennta- ogmenningarmálaráðuneytinu sem fræðsluaðili til að annast framhaldsfræðslu skv. ofangreindum lögum.

Starfsemi Námsflokka Hafnarfjarðar – Miðstöð símenntunar hefur tekið breytingum í samræmi við breyttar aðstæður í samfélaginu. Helstu þættir starfseminnar síðustu ár hafa því verið sem hér segir:

Frístundanám, háskólanám í samstarfi við Háskólann á Akureyri, námskeið fyrir atvinnuleitendur, réttindanámskeið fyrir dagforeldra, Enskuskólinn og Hraðlestrarskólinn auk samstarfs við fyrirtæki og einstaklinga um nám og námskeiðahald.

Norsku - og sænskukennsla fyrir grunnskólanemendur

Miðstöð símenntunar annast ekki lengur framkvæmd þessarar kennslu.

Nánari upplýsingar hjá skólaskrifstofu Hafnarfjarðar.

Þetta nám er í boði fyrir nemendur sem eru fæddir í Noregi eða Svíþjóð eða hafa búið þar til lengri tíma og kjósa að viðhalda tungumálinu í stað þess að læra dösku í grunnskóla.

c