Mynd af Ljósmæðrafélag Íslands

Ljósmæðrafélag Íslands

Á árunum 1987-1989 var á vegum Ljósmæðrafélags Íslands unnið að því að láta hanna og smíða nýtt barmmerki félagsins að samnorrænni fyrirmynd. Fyrirmyndinni voru settar nokkuð fastar skorður, því merkið átti að sýna lífsins tré og jafnframt vera einkennandi fyrir íslenskar ljósmæður.

Guðbjörg Hlíf Pálsdóttir, listakona tók að sér að leggja fram tillögu að nýju útliti merkisins og var ný barmnæla Ljósmæðrafélags Íslands gerð eftir teikningu hennar.

Upphaf samnorræns merkis ljósmæðra má rekja til Danmerkur, en þar var ákveðið á aðalfundi danska ljósmæðrafélagsins 30. október 1917 að gera merki til að auðkenna ljósmæður og fjórar tillögur lagðar fram í upphafi og valdi félagið eina til að senda félögunum til umfjöllunar. Þessi tillaga var samþykkt 1918 og merkið tekið í notkun 1919 og ætlað að vera sameiningartákn ljósmæðra í Danmörku.

Árið 1943 fara sænskar ljósmæður að huga að merki fyrir sig og beina þeirri fyrirspurn til Danska Ljósmæðrafélagsins hvort þær megi nota dönsku fyrirmyndina. Þessu erindi þeirra var vel tekið og sænska merkið hannað í þessum sama dúr.
Það er síðan ákveðið á stjórnarfundi Norðurlandasamtaka ljósmæðra (NJF) í Kuopio í Finnlandi árið 1951 að ljósmæðrafélög á Norðurlöndum sameinist um að nota sömu fyrirmyndina í merkjum sínum, en það er Lífsins tré og skuli hvert land auðkenna sitt merki á einhvern hátt.

Myndin á danska merkinu er lífsins tré úr gulli á dökkbláum grunni og er fyrirmyndin fengin úr norrænni goðafræði þar sem segir;

,,Í miðri veröldinni stendur askurinn Yggdrasil, sem er grænn bæði vetur og sumar. Hann er kallaður tré heimsins og hefur mikið vald og geymir mörg leyndarmál. Í greinum hans fæðist sálin, en eftir því sem guðir og menn vita best er Yggdrasil eldri en heimurinn og bitbein í stöðugri baráttu góðs og ills” (Henning Jaquet, lidt om DADJ´s emblem).

Einnig er sagt frá því í bókinni Goð og Garpar, úr norrænum sögum (Brian Branston, 1978) ,,....að við upphaf ragnaraka hafi Yggdrasill skolfið. Askurinn haggaðist en féll ekki. Tvær mannverur höfðu þá fyrirhyggju að klifra uppí lim asksins og leynast í þykkur laufskrúðinu í það mund sem Surtur slöngvaði eldi yfir alla hluti. Þessar mannverur, karl og kona að nafni Líf og Lífþrasir björguðust. Frá þeim kemur svo mikil kynslóð að byggja mun heim allan.”

Merki Ljósmæðrafélags Íslands er í þessum anda og sýnir grænt tré á hvítum grunni sem er tákn íssins sem er eitt höfuðeinkenna lands okkar og á að sýna að tréð vex allsstaðar. Utan með er dökkblá rönd, hafið sem umlykur landið og ísinn og er hún afmörkuð beggja vegna með gylltri rönd, tákni eldsins sem alltaf er stutt í og átti stóran þátt í mótun þessa lands.

Í bláu röndinni er nafn félagsins ritað gylltum bókstöfum og neðst fyrir miðju er þríarma gylltur ljósastaki sem hefur þríþætta merkingu. Hann er þríarma sem minnir á að þrír eða þríhyrningur er tákn frjóseminnar, hann minnir á ljósið sem barnið sér fyrsta sinni við fæðingu og við tökum starfsheiti okkar af og að síðustu minnir hann á að halda ætið vöku sinni.

Reykjavík í apríl 1989
Endurskoðað í febrúar 2006
Hildur Kristjánsdóttir.

Employees

Unnur Berglind Friðriksdóttir

Formaður
formadur@ljosmaedrafelag.is
c