Mynd af Djúpavogshreppur

Djúpavogshreppur



Verslunarstaðurinn Djúpivogur

Verslunarstaðurinn Djúpivogur stendur á nesinu milli Hamarsfjarðar og Berufjarðar, Búlandsnesi. Saga Djúpavogs samtvinnast mjög verslunarsögunni. Hér hefur verið rekin verslun í yfir 400 ár. Búlandsness er getið þegar í Landnámsbók, en elsti verslunarstaður hér um slóðir var í Gautavík við Berufjörð norðanverðan. Bæði í Njálssögu og Fljótsdælasögu segir frá skipakomum þangað.

Á 14. og 15. öld virðist hafa verið töluvert verslað við þjóðverja eftir því sem annálar herma. Eru í Gautavík sýnilegar minjar um verslunarstaðinn þar. Frá Gautavík er verslunin svo flutt yfir fjörðinn, og þá fyrst til Fýluvogs (Fúluvíkur). Voru það kaupmenn frá Bremen eða Brimarkaupmenn. Þaðan fluttist verslun síðan yfir á Djúpavog. Fengu Hamborgarkaupmenn með hálfgerðum prettum einkaleyfi til verslunar hér með sérstöku verslunarleyfi Friðriks annars, hinn 20. júní 1589. Má sá dagur teljast stofndagur verslunar á Djúpavogi.


Á einokunartímanum náði verslunarsvæði Djúpavogs milli Gvendarness og Skeiðarár, yfir 10 sveitir. Danski kaupmaðurinn J.L. Busch rak hér verslun á árunum 1788-1818 en þá keypti verslunarfyrirtækið Ørum & Wulff húseignir hér og var síðan að mestu einrátt um viðskipti í rúm 100 ár. Frá þeim tíma eru elstu hús á Djúpavogi, Langabúð, reist úr bjálkum á öndverðri 19. öld, og núverandi Menningarmiðstöð Djúpavogs, er reist var 1848. Kaupfélag var stofnað 1920 og hefur staðið fyrir verslun hér síðan.

Sjávarútvegur hefur lengi verið stundaður frá Djúpavogi. Hákarlaskútur voru gerðar héðan út á 19. öld og síðar þilskip til þorskveiða. Hvalveiðistöð var hér eitt sumar. Upp úr aldamótunum 1800-1900 komu vélbátar til sögunnar og hafa þeir farið smám saman stækkandi. Nú eru gerðir út 25-30 smábátar. Djúpivogur var ein helsta útgerðarstöð á Austurlandi fram að síðustu aldamótum en fór heldur hnignandi er leið fram á 20. öldina. Á síðari árum hefur staðurinn tekið að vaxa á ný.

Góð náttúrleg höfn er á Djúpavogi. Verulegar hafnarframkvæmdir hófust ekki fyrr en 1947 er byggð var hafskipabryggja en áður voru hér nokkrar smábryggjur í eigu einstaklinga.

Allmikill landbúnaður var áður stundaður á Djúpavogi en nú hefur dregið úr honum. Landsímastöð hefur verið á Djúpavogi frá 1915, sjálfvirk símstöð frá 1976 og póstafgreiðsla frá 1873.

Sýslumaður sat á Djúpavogi um hríð. Læknir settist hér að upp úr aldamótum. Kirkja var flutt til Djúpavogs frá Hálsi í Hamarsfirði árið 1894 og prestur hefur setið hér frá 1905. Til Djúpavogsprestakalls heyra kirkjur á Djúpavogi, í Berufirði, á Berunesi og Hofi í Álftafirði.

Almenn barnakennsla hófst á Djúpavogi 1888 og var fyrst kennt í Hótel Lundi. Skólahús var byggt 1912 og nýtt skólahús, 1953. Hér starfar nú grunnskóli til og með 10. bekk.

Félagslíf hefur verið nokkuð blómlegt á Djúpavogi. Ungmennafélagið Neisti var stofnað 1919 og hefur meðal annars staðið fyrir íþrótta- og leikstarfsemi, einkum fyrr á árum. Kvenfélagið Vaka hefur starfað alllengi. Á Djúpavogi starfa Lionsklúbbur Djúpavogs, Verkalýðs- og sjómannafélag Djúpavogs, Slysavarnadeildin Bára, Ræktunarfélag Djúpavogs, Knattspyrnufélagið Neisti og fleiri félög.

Búlandstindur setur mjög svip á útsýni frá Djúpavogi en hann er þaðan að sjá eins og píramídi enda talinn eitt formfegursta fjall við sjó á Íslandi.

Skammt innan við Djúpavog er viti, á Æðarsteinstanga, reistur 1926.

Fyrrum var talið að á Djúpavogi væru að meðaltali 212 þokudagar á ári og komst það í bækur. Þetta reyndist þó síðar á misskilningi byggt en þokusamt er þar eigi að síður.


Employees

Gauti Jóhannsson

Sveitarstjóri
sveitarstjori@djupivogur.is
c