
Hafnarborg, menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar

Hafnarborg, menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar var stofnuð árið 1983 og varð um leið aðsetur listaverkasafns Hafnarfjarðarbæjar. Stofnendur Hafnarborgar, þau Sverrir Magnússon lyfsali og Ingibjörg Sigurjónsdóttir kona hans lögðu grunn að safninu með listaverkagjöf sinni árið 1983. Á 75 ára kaupstaðarafmæli Hafnarfjarðar, 1. júní 1983 afhentu þau bænum með gjafabréfi húseignina að Strandgötu 34 ásamt veglegu safni málverka og bóka. Húsið að var hannað af Guðjóni Samúelssyni fyrir Sören Kampmann lyfsala sem bjó þar og rak apótek frá árinu 1921. Sverrir Magnússon tók síðan við húsinu og rekstrinum árið 1947 og stóð fyrir rekstri Hafnarfjarðar Apóteks til ársins 1984.
Í gjafabréfinu kváðu Sverrir og Ingibjörg á um að í húsinu skyldi starfsrækt menningarstofnun sem efla skyldi lista- og menningarlíf í Hafnarfirði, með rekstri listaverkasafns, sýningarsala og gistivinnustofu fyrir listamenn auk þess sem þar skyldu haldnir tónleikar. Hafnarborg, menningar- og listastofnun Hafnarfjarðar var síðan formlega vígð 21. maí 1988. Þá hafði verið reist við húsið viðbygging sem hönnuð var af arkitektinum Ingimar H. Ingimarssyni.
Sýningadagskrá Hafnarborgar er fjölbreytt og eru að jafnaði haldnar 10 – 12 myndlistarsýningar á ári þar sem finna má verk sem spanna íslenska listasögu allt frá þjóðargersemum frumkvöðlanna til tilraunakenndra verka listamanna samtímans. Fyrirlestrar og málþing í tengslum við sýningar safnsins eru fastur liður auk þess sem áhersla er lögð á að bjóða upp á samtal gesta við listamenn og sýningarstjóra og stuðla þannig að áhugaverðari upplifun af sýningum. Listsmiðjur og leiðsagnir fyrir börn eru reglulegir viðburðir. Haldnir eru mánaðalegir hádegistónleikar þar sem lögð er áhersla á óperutónlist jafnframt því sem samtímatónleikaröðin Hljóðön skipar veglegan sess í dagskránni.
Árið 2014 hlaut Hafnarborg tilnefningu til hinna íslensku safnaverðlauna.
