Nýsköpunarmiðstöð Íslands

Burðarás í fjölþjóðlegu samstarfi
Nýsköpunarmiðstöð Íslands
Nýsköpunarmiðstöð Íslands spilar veigamikið hlutverk, hvort sem litið er til stuðningsumhverfis nýsköpunar á Íslandi eða íslensks rannsóknarsamfélags. Nýsköpunarmiðstöð heyrir undir iðnaðarráðuneytið og starfar eftir lögum um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun. Innan veggja Nýsköpunarmiðstöðvar starfar fjölbreyttur hópur sérfræðinga og rannsóknaraðila á ólíkum sviðum sem í gegnum verkefni sín hvetja til nýsköpunar og efla framgang nýrra hugmynda, íslensku atvinnulífi til framdráttar. Á degi hverjum er unnið að þróun, mótun og starfrækslu öflugra stuðningsverkefna í bland við faglega þjónustu, sem veitt er til frumkvöðla og starfandi fyrirtækja og stofnana. Sérstök áhersla er lögð á rekstur hagnýtra rannsóknareininga í góðum tengslum við atvinnulífið, háskólasamfélagið og erlenda samstarfsaðila. Höfuðstöðvar Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands eru að Keldnaholti í Reykjavík, en allt frá árinu 2008 hefur starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar vaxið umtalsvert og eru starfsstöðvarnar nú alls átta talsins víðsvegar um landið: á Akureyri, Egilsstöðum, Húsavík, Höfn, Ísafirði, Reykjavík, Sauðárkróki og Vestmannaeyjum. Jafnframt rekur Nýsköpunarmiðstöð Íslands fjölda frumkvöðlasetra þar sem um eitt hundrað frumkvöðlafyrirtæki með tæplega þrjú hundruð starfsmenn fá aðstöðu og hvetjandi umgjörð til að vinna að hugmyndum sínum.
Employees
Allir starfsmenn: http://www.nmi.is/nyskopunarmidstod/starfsmenn/
