Mynd af Samtök fjármálafyrirtækja

Samtök fjármálafyrirtækja

Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) eru heildarsamtök fjármálafyrirtækja á Íslandi. Tilgangur og meginverkefni samtakanna eru að vera málsvari fjármálafyrirtækja í hagsmunamálum þeirra og stuðla að því að starfskilyrði þeirra séu samkeppnishæf. SFF gæta hagsmuna aðildarfélaga samtakanna gagnvart stjórnvöldum, eftirlitsstofnunum, almenningi og atvinnulífi og aðstoða þau við að byggja upp heilbrigt og traust fjármálakerfi. Fulltrúar samtakanna taka virkan þátt í opinberri umræðu og beita sér fyrir því að koma sjónarmiðum aðildarfélagana á framfæri sem og stuðla að upplýstri umræðu um mikilvægi fjármálakerfisins fyrir efnahagslífið og aukningu á skilningi á starfsemi fjármálafyrirtækja og hlutverki þeirra í hagkerfinu. Eitt stærsta verkefni SFF á næstu árum verður að styðja aðildarfélög sín í að byggja upp traust á fjármálakerfinu á ný.

SFF taka virkan þátt í hagsmunagæslu á alþjóðavettvangi en samtökin eiga aðild að bæði Evrópsku bankasamtökunum (EBF) og Samtökum evrópskra tryggingarfélaga (CEA). Virk þátttaka í erlendu samstarfi skiptir miklu máli fyrir samtökin enda starfa íslensk fjármálafyrirtæki í alþjóðlegu umhverfi, vegna mikilvægi útflutningsiðnaðar fyrir íslenska hagkerfið og hins evrópska lagaumhverfis sem gildir um starfsemi þeirra.


Í apríl árið 2015 áttu 30 fjármálafyrirtæki aðild að SFF. SFF tóku formlega til starfa í janúarbyrjun árið 2007 en þau urðu til í nóvember 2006 þegar Samtök banka og verðbréfafyrirtækja (SBV) sameinuðust Sambandi íslenskra tryggingarfélaga (SÍT). Áður höfðu SBV orðið til við sameiningu Sambands íslenskra viðskiptabanka (SÍV), Sambands lánastofnana (SL) og Samtaka verðbréfafyrirtækja (SV) í desember 2000.

Guðjón Rúnarsson hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra SFF frá stofnun samtakanna en hann var áður framkvæmdastjóri SBV. Stjórnarformaður SFF er Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans. Skrifstofur SFF eru í Húsi atvinnulífsins við Borgartún 35 í Reykjavík. Á skrifstofu SFF starfa sjö manns við fjölbreytt og ólík úrausnarefni. Á vegum SFF er haldið úti fjölda sérfræðihópa um þau viðfangsefni sem eru á borðum samtakanna hverju sinni. Sérfræðihóparnir eru skipaðir af fulltrúum samtakanna og aðildarfélaganna. Þar með er þekking beggja samtvinnuð til að hún nýtist við að ná fram markmiðum samtakanna. Allt starf SFF byggir á gildum samtakana en þau eru liðsheild, fagmennska og traust.

c