Mynd af Eining-Iðja

Eining-Iðja

Laugardaginn 15. maí 1999 var formlega gengið frá samruna Verkalýðsfélagsins Einingar og Iðju, félags verksmiðjufólks á Akureyri. Félaginu var valið nafnið Eining-Iðja. Þótt þetta sameinaða félag eigi sér þannig séð ekki langa sögu stendur það á gömlum merg því félögin eiga sér hvort um sig langa og merka sögu í baráttu verkafólks fyrir réttindum sínum. Sögu Iðju má rekja allt aftur til ársins 1936 og er stofndagur félagsins talinn 29. mars það ár. Verkalýðsfélagið Eining varð til 10. febrúar 1963 með sameiningu Verkakvennafélagsins Einingar og Verkamannafélags Akureyrarkaupstaðar. Rætur Einingar ná þó mun lengra aftur og má segja að fyrsta fræinu hafi verið sáð árið 1894 þegar Verkamannafélag Akureyrarkaupstaðar, hið eldra, var stofnað.

Félagsvæði Einingar-Iðju er Akureyri, Dalvíkurbyggð, Fjallabyggð og allir hreppar Eyjafjarðarsýslu. Einnig Svalbarðsstrandar- og Grýtubakkahreppur í Suður-Þingeyjarsýslu.

Félagið skiptist í þrjár starfsgreinadeildir og er hugmyndin með starfsgreinaskiptingu að nýta kosti bæði stórra og smærri félaga. Deildirnar þrjár eru Iðnaðar- og tækjadeild, Matvæla- og þjónustudeild og Opinbera deildin.

Eining-Iðja á aðild að Starfsgreinasambandinu og Alþýðusambandi Íslands. Félagið tekur virkan þátt í starfi sambandanna og ýmissa annarra félaga og sjóða. Félagið á til dæmis stjórnarmann í framkvæmdastjórn Starfsgreinasambandins, miðstjórn ASÍ og Stapa lífeyrissjóðs.

Félagið heldur úti öflugri þjónustu fyrir félagsmenn og leitast er við að tryggja þeim sem bestan aðgang að upplýsingum og þjónustu á heimasíðunni.

Nánari upplýsingar um Einingu-Iðju má fá með því að nota valmyndina hér til hliðar.

c