
Djúpavogshreppur

Verslunarstaðurinn Djúpivogur stendur á nesinu milli Hamarsfjarðar og Berufjarðar, Búlandsnesi. Saga Djúpavogs samtvinnast mjög verslunarsögunni. Hér hefur verið rekin verslun í yfir 400 ár. Búlandsness er getið þegar í Landnámsbók, en elsti verslunarstaður hér um slóðir var í Gautavík við Berufjörð norðanverðan. Bæði í Njálssögu og Fljótsdælasögu segir frá skipakomum þangað.
Sjávarútvegur hefur lengi verið stundaður frá Djúpavogi. Hákarlaskútur voru gerðar héðan út á 19. öld og síðar þilskip til þorskveiða. Hvalveiðistöð var hér eitt sumar. Upp úr aldamótunum 1800-1900 komu vélbátar til sögunnar og hafa þeir farið smám saman stækkandi. Nú eru gerðir út 25-30 smábátar. Djúpivogur var ein helsta útgerðarstöð á Austurlandi fram að síðustu aldamótum en fór heldur hnignandi er leið fram á 20. öldina. Á síðari árum hefur staðurinn tekið að vaxa á ný. Góð náttúrleg höfn er á Djúpavogi. Verulegar hafnarframkvæmdir hófust ekki fyrr en 1947 er byggð var hafskipabryggja en áður voru hér nokkrar smábryggjur í eigu einstaklinga. Allmikill landbúnaður var áður stundaður á Djúpavogi en nú hefur dregið úr honum. Landsímastöð hefur verið á Djúpavogi frá 1915, sjálfvirk símstöð frá 1976 og póstafgreiðsla frá 1873. Sýslumaður sat á Djúpavogi um hríð. Læknir settist hér að upp úr aldamótum. Kirkja var flutt til Djúpavogs frá Hálsi í Hamarsfirði árið 1894 og prestur hefur setið hér frá 1905. Til Djúpavogsprestakalls heyra kirkjur á Djúpavogi, í Berufirði, á Berunesi og Hofi í Álftafirði. Almenn barnakennsla hófst á Djúpavogi 1888 og var fyrst kennt í Hótel Lundi. Skólahús var byggt 1912 og nýtt skólahús, 1953. Hér starfar nú grunnskóli til og með 10. bekk. Félagslíf hefur verið nokkuð blómlegt á Djúpavogi. Ungmennafélagið Neisti var stofnað 1919 og hefur meðal annars staðið fyrir íþrótta- og leikstarfsemi, einkum fyrr á árum. Kvenfélagið Vaka hefur starfað alllengi. Á Djúpavogi starfa Lionsklúbbur Djúpavogs, Verkalýðs- og sjómannafélag Djúpavogs, Slysavarnadeildin Bára, Ræktunarfélag Djúpavogs, Knattspyrnufélagið Neisti og fleiri félög. Búlandstindur setur mjög svip á útsýni frá Djúpavogi en hann er þaðan að sjá eins og píramídi enda talinn eitt formfegursta fjall við sjó á Íslandi. Skammt innan við Djúpavog er viti, á Æðarsteinstanga, reistur 1926. Fyrrum var talið að á Djúpavogi væru að meðaltali 212 þokudagar á ári og komst það í bækur. Þetta reyndist þó síðar á misskilningi byggt en þokusamt er þar eigi að síður. |
Starfsmenn
Gauti Jóhannsson
Sveitarstjóri