Mynd af Íslandsspil sf

Íslandsspil sf

ALMENNAR UPPLÝSINGAR

Íslandsspil er sameignarfélag í eigu þriggja félagasamtaka sem öll vinna að almannaheill. Þau eru Rauði krossinn, Slysavarnafélagið Landsbjörg og SÁÁ.

Íslandsspil reka söfnunarkassa (spilakassa) og rennur allur ágóði af rekstri fyrirtækisins til eiganda þess í réttu hlutfalli við eignarhlut þeirra.

Rauði krossinn er stærsti eigandi Íslandsspila með á 64% eignarhlut, Slysavarnafélagið Landsbjörg á 26,5% í fyrirtækinu og SÁÁ 9,5%.

Eigendur Íslandsspila bera engan kostnað af rekstri félagsins. Framlag Íslandsspila er viðbót við sjálfsaflafé, styrki og frjáls framlög til félagasamtakanna þriggja.

Íslandsspil starfa samkvæmt lögum um söfnunarkassa (73/1994) og reglugerð um söfnunarkassa (320/2008).

Íslandsspilum er heimilt er að reka söfnunarkassa á:

  • almennum stöðum, s.s. söluturnum, myndbandaleigum, verslunum, áningarstöðum, umferðarmiðstöðvum og veitingastöðum.
  • vínveitingastöðum og spilasölum.

Á almennum stöðum er hægt að spila fyrir 10 til 250 kr. Hámarksvinningur er 20.000 kr. Á vínveitingastöðum og spilasölum er hægt að leggja undir að hámarki 300 kr. og hámarksvinningur er 100.000 kr.

Íslandsspil hafa ekki heimild til þess að tengja saman söfnunarkassa sína og bjóða ekki upp á uppsafnaða vinningspotta.

Tilviljun ein ræður útkomu leikja og ekki er með neinum hætti hægt að hafa áhrif á vinningslíkur í kössunum. Tölvubúnaður stjórnar því að sérhver aðgerð og útkoma á spilakassa er algerlega óháð fyrri aðgerðum og því hvernig er spilað á kassann.

Leyfi stjórnvalda til Íslandsspila um rekstur söfnunarkassanna grundvallast á því að veita eigendum félagsins möguleika til tekjuöflunar vegna almenns rekstrar og draga þannig úr beinum útgjöldum ríkissjóðs sem annars yrðu að koma til.

Arður af söfnunarkössum Íslandsspila er

  • mikilvægasti tekjustofn Rauða krossins á Íslandi.
  • skiptir sköpum fyrir starfsemi Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
  • er mikilvægur fyrir rekstur SÁÁ.

Tekjur Íslandsspila hafa lækkað á undanförnum árum og greiðslur til eigenda Íslandsspila, Rauða krossins, Slysavarnafélagsins Landsbjargar og SÁÁ hafa dregist saman um 26,7% á síðustu 5 árum.

Samdrátturinn hjá Íslandsspilum er tilkominn vegna samdráttar í efnahagslífinu og vegna aukinna vinsælda margvíslegra erlendra netleikja þar sem oft er spilað um háar peningaupphæðir.

Talið er að 1,5 milljarðar renni árlega úr landinu við spilun landsmanna á erlendum vefsíðum á netinu og í gegnum snjallsíma.

Samfélagsleg ábyrgð Íslandsspila

Íslandsspil eru samfélagslega ábyrgt fyrirtæki og reka m.a. í samvinnu við Íslenska getspá og Happdrætti Háskóla Íslands upplýsingasíðuna abyrgspilun.is, sem hefur að geyma margvíslegar uppslýsingar um peningaspil.

Upplýsingarnar á síðunni og í bæklingi sem liggur frammi á öllum spilastöðum Íslandsspila eru unnar af Auði Sigrúnardóttur MA í sálfræði og dr. Daníel Þór Ólasyni, dósent í sálfræði við Háskóla Íslands.

Íslandsspil veita árlega styrki til meðferða vegna spilavanda hjá SÁÁ og styrki til Samtaka áhugafólks um spilafíkn.

Íslandsspil leggja mikla áherslu á að upplýsa starfsfólk sölustaða um ábyrga spilun og býður þeim upp á námskeið um efnið og upplýsingabæklinga í samstarfi við Íslenska getspá og HHÍ.

Starfsfólk söluaðila sinnir eftirliti með kössunum og er ábyrgt fyrir að sannreyna aldur spilara. Íslandsspil sinna einnig öflugu eftirliti þar að lútandi en starfsmenn fyrirtækisins fara í rúmlega 700 heimsóknir á sölustaði á hverju ári, auk þess sem fulltrúar rannsóknarmiðstöðvarinnar Rannsóknir og greining fara í reglulegar hulduheimsóknir á sölustaði Íslandsspila.

Upphafið

Sögu söfnunarkassanna má rekja til ársins 1972 þegar Rauði krossinn fékk leyfi til reksturs „tíkallakassa“ sem margir muna eftir. Ágóðinn rann til góðgerðarmála Rauða krossins, aðallega til reksturs sjúkrabíla.

Árið 1989 hófu Rauði krossinn og SÁÁ hófu samstarf um söfnunarkassana. Ári síðar slógust Slysavarnafélag Íslands og Landsbjörg (nú Slysavarnafélagið Landsbjörg) í hópinn.

Árið 1994 var fyrirtækið Íslenskir söfnunarkassar formlega stofnaðir og árið 2003 var nafni fyrirtækisins breytt í Íslandsspil.

Starfsmenn

Magnús Snæbjörnsson

Framkvæmdastjóri
magnus@islandsspil.is

Kort

c