Mynd af Ríkissaksóknari

Ríkissaksóknari

Um embættið

Staða ríkissaksóknara

Ríkissaksóknari er æðsti handhafi ákæruvalds. Hann er skipaður af ráðherra ótímabundið og skal fullnægja lagaskilyrðum til skipunar í dómaraembætti við Hæstarétt. Ríkissaksóknara til aðstoðar eru vararíkissaksóknari, sem skal fullnægja sömu lagaskilyrðum og er einnig skipaður ótímabundið, saksóknarar og aðstoðarsaksóknarar. Skrifstofa ríkissaksóknara er til húsa að Suðurlandsbraut 4 í Reykjavík.

Sérstök verkefni ríkissaksóknara

Ríkissaksóknari höfðar sakamál ef brot varðar X. kafla almennra hegningarlaga, svo og þau mál önnur þar sem ráðherra tekur ákvörðun um saksókn.

  • Ríkissaksóknari hefur eftirlit með framkvæmd ákæruvalds hjá lögreglustjórum og héraðssaksóknara.
  • Ríkissaksóknari gefur út almenn fyrirmæli um meðferð ákæruvalds og getur gefið öðrum ákærendum fyrirmæli um einstök mál sem þeim er skylt að hlíta.
  • Ríkissaksóknari getur tekið ákvörðun um saksókn úr höndum lögreglustjóra og héraðssaksóknara og gefið út ákæru í viðkomandi máli telji hann þess þörf.
  • Ríkissaksóknari endurskoðar að eigin frumkvæði og/eða að fenginni kæru frá þeim sem hefur hagsmuna að gæta ákvörðun lögreglustjóra og héraðssaksóknara um að falla frá saksókn í máli.
  • Að fenginni kæru frá þeim sem hefur hagsmuna að gæta;

a) endurskoðar ríkissaksóknari ákvörðun lögreglustjóra og héraðssaksóknara um að fella mál niður af þeirri ástæðu að það sem fram er komið í málinu þykir ekki, að mati lögreglustjóra, líklegt til sakfellis,

b) endurskoðar ríkissaksóknari ákvörðun lögreglustjóra og héraðssaksóknara um að vísa frá kæru eða hætta rannsókn í máli sem byrjað hefur verið á.

  • Ríkissaksóknari tekur ákvörðun um hvort áfrýja skuli máli af hálfu ákæruvaldsins.
  • Ríkissaksóknari annast ýmis atriði varðandi áfrýjun mála, tekur við áfrýjunaryfirlýsingu og beiðni um áfrýjunarleyfi frá dómþola sem óskar að áfrýja máli, gefur út áfrýjunarstefnu og sér um að hún verði birt ákærða og ennfremur undirbýr hann og annast frágang á gögnum sem lögð eru fyrir Hæstarétt í svonefndu ágripi málsgagna.
  • Ríkissaksóknari veitir umsögn um mál vegna beiðni um endurupptöku.
  • Ríkissaksóknari annast sókn í sakamálum fyrir Hæstarétti.
  • Ríkissaksóknari sinnir alþjóðlegum samskiptum og samstarfi ákærenda við meðferð sakamála.
  • Ríkissaksóknari heldur sakaskrá fyrir landið allt þar sem skráð eru úrslit sakamála.
  • Ríkissaksóknari hefur eftirlit með framkvæmd símahlustana og sérstakra rannsóknaraðferða lögreglu.
  • Ríkissaksóknari sinnir réttarbeiðnum frá erlendum yfirvöldum og málum vegna kröfu um framsal/afhendingu erlendra ríkisborgara.
  • Ríkissaksóknari heldur utan um tölfræðilegar upplýsingar vegna starfsemi ákæruvaldsins.
  • Ríkissaksóknari fer með yfirstjórn rannsókna sakamála á landsvísu og ber að sinna þar samræmingar og eftirlitshlutverki.

Starfsmenn

Sigríður J Friðjónsdóttir

Saksóknari
c